Mikhail Gorbatsjov fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna lenti á Reykjavíkurflugvelli klukkan 16.25 í dag, en hann kom hingað í einkavél Björgólfs Thors Björgólfssonar, forstjóra Novators. Gorbatsjov er kominn hingað til lands til þess að halda fyrirlestur í Háskólabíói á morgun, en í dag eru 20 ár liðin frá leiðtogafundi Gorbatsjovs og Ronalds Reagans fyrrverandi forseta Bandaríkjanna sem haldinn var í Höfða í Reykjavík árið 1986.
Sá fundur er sagður hafa sett Ísland endanlega á heimskortið. Leiðtogafundurinn beindi á sínum tíma athygli umheimsins að Íslandi með hætti sem aldrei hafði gerst áður, Ísland var í sviðsljósi alþjóðlegrar fjölmiðlunar dögum saman. Þá var á fundinum lagður grunnur að stórbættum samskiptum milli austurs og vesturs og því afvopnunarsamkomulagi sem leiðtogarnir gerðu með sér ári síðar.
Aðspurður um arfleið fundarins 20 árum síðar sagði Gorbatsjov fundinn hafa verið afar mikilvægan og ekki til einskis.
Í hádeginu á morgun mun hann þiggja hádegisboð í Höfða í boði Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarstjóra Reykjavíkur. Klukkan fimm mun hann síðan halda fyrirlestur í Háskólabíói sem fyrr segir.
Gorbatsjov er handhafi Nóbelsverðlaunanna og var valinn maður 9. áratugarins af TIME. Gorbatsjov er jafnan talinn hafa átt einn stærstan þátt í falli járntjaldsins, hnignun kommúnismans og að kalda stríðið leið undir lok. Í fyrirlestrinum mun Gorbatsjov ræða um stjórnun á 21. öldinni, frið, sögulega þýðingu og minningar sínar frá leiðtogafundinum í Höfða.
Fyrirlesturinn er opinn öllum og miðasala er fer fram á www.concert.is, midi.is, verslunum Skífunnar og BT úti á landi. Á fimmtudaginn hefst sala á ósóttum pöntunum.