Þór var að undirbúa farveginn fyrir frumvarp um öryggisgæslu, segir Jón Baldvin

Jón Baldvin Hannibalsson
Jón Baldvin Hannibalsson

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir að sagnfræðingurinn Þór Whitehead hafi byrjað umræðu um leyniþjónustu á Íslandi með orðum sínum um að hér hafi verið starfandi leyniþjónusta um áratugaskeið. Jón Baldvin sagði í Silfri Egils að Þór, sem Jón Baldvin segir að sé fóstbróðir Björns Bjarnasonar, hafi þar verið að undirbúa farveginn fyrir frumvarp Björns um öryggisgæslu.

Jón Baldvin segist ekki hafa haft hugmynd um að hér væri starfandi leyniþjónusta en sig hafi grunað að Bandaríkjamenn stæðu að baki símahlerunum hjá sér.

Jón Baldvin sagði aðspurður í þættinum að hann hafi ekki greint frá því fyrr að sími hans hafi verið hleraður þar sem hann hafði ekki getað sannað þær. Hins vegar sé komið fram heiðarlegt vitni frá Landsímanum.

Jón Baldvin segir að hvorki hann né Steingrímur Hermannsson, þáverandi forsætisráðherra, hafi látið njósna um Svavar Gestsson, þáverandi menntamálaráðherra. Því hafi þeir ekki beðið Svavar afsökunar. Hann segir að þeir hafi farið fram á það að fylgst væri með því þegar safn gagna um Stasi var opnað hvort eitthvað væri þar að finna um Ísland. Ekki hafi verið minnst á Svavar þar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert