Allsnarpur jarðskjálfti suðaustur af Flatey

Frá Flatey.
Frá Flatey. Mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Allsnarpur jarðskjálfti varð um 8 kílómetra suðaustur af Flatey klukkan 13:55 í dag, en skjálftinn mældist um 5 á Richter. Fregnir hafa borist af því að skjálftinn hafi fundist vel meðal annars á Akureyri og Húsavík og að brakað hafi í húsgögnum. Að sögn Gunnars B. Guðmundssonar, jarðeðlisfræðings á Veðurstofu Íslands hafa orðið um 15 eftirskjálftar sem allir hafa þó verið í minna lagi, sá stærsti 1,7 á Richter.

Gunnar segir að skjálftinn hafi orðið á hinu svokallaða Húsavíkur-Flateyjar misgengi þar sem stórir skjálftar hafi orðið fyrr á öldum. Sem dæmi megi nefna skjálfta sem varð árið 1872 og mældist um 6 á Richter.

Samkvæmt upplýsingum frá Húsavík urðu menn þar vel varir við jarðskjálftann. Fólk sem var við vinnu á hafnarsvæðinu varð vart við skjálftann og sjómaður sem var að ganga frá báti sínum heyrði drunur en varð ekki var við höggið.

Starfsfólk Fosshótels Húsavíkur varð einnig vel vart við skjálftann og að sögn Olgu Hrundar Hreiðarsdóttur, starfsmanns hótelsins, nötraði hótelbyggingin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert