52 krossar reistir við Kögunarhól til að minnast látinna

Hannes Kristmundsson garðyrkjumaður og kona hans Sigurbjörg Gísladóttir reistu fyrst …
Hannes Kristmundsson garðyrkjumaður og kona hans Sigurbjörg Gísladóttir reistu fyrst krossinn ásamt fjölskyldunni. mbl.is/Sig. Jóns.

52 krossar voru reistir við Kögunarhól til að minnast þeirra sem farist hafa í slysum á Suðurlandsvegi milli Reykjavíkur og Selfoss. Fjöldi fólks var við athöfnina og hjálpaðist fólk að við að reisa krossana. Í þeim hópi voru grunnskólabörn úr Hveragerði, bæjarfulltrúar, alþingismenn, landbúnaðarráðherra og fjölmargir aðrir.

Séra Úlfar Guðmundsson sóknarprestur blessaði staðinn og fór nokkrum orðum um þá miklu hætt sem felst í umferðinni og hve nauðsynlegt það er að tekin verði sem allra fyrst ákvörðun um að tvöfalda og lýsa veginn til þess að minnka sem mest slysahættuna. Hann bað þess að þessi athöfn mætti hafa þau áhrif að vekja athygli á nauðsyn úrbóta.

Hannes Kristmundsson garðyrkjumaður sem hafði frumkvæði að þessu framtaki að reisa krossana þakkaði öllum þeim sem veitt höfðu stuðning til verkefnisins. Hann sagði mikinn stuðning við það að vegurinn yrði tvöfaldaður og lýstur. Það væri stærsta skrefið sem hægt væri að taka til að minnka slysahættuna á veginum.

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra sagði mikla nauðsyn á því að gera úrbætur á Suðurlandsvegi. Málið væri á dagskrá hjá ríkisstjórninni og því yrði fundinn góður farvegur. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri tók til máls og lýsti m.a. yfir stuðningi við breikkun vegarins.

Við athöfnina sagi Sigurður Jónsson frá því að Vinir Hellisheiðar hefðu sem grasrótarsamtök gengið til liðs við Samstöðu um slysalaust Ísland og myndu vinna með þeim samtökum að slysavörnum undir markmiðinu Slysalaust Ísland. Í máli Steinþórs Jónssonar talsmanns Samstöðu kom fram að mikill hugur væri í grasrótarsamtökum að vinna að slysavörnum í umferðinni. Hann gat þess að áhugahópurinn um Reykjanesbrautina hefði kveikt á 52 kertaljósum á sínum tíma til að minnast þeirra sem farist hefðu á Reykjanesbrautinni, nú væri hún langt komin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert