Vegagerðin kynnir breikkun Suðurlandsvegar um eina akrein

Vegagerðin birti á heimasíðu sinni í dag tillögu að breikkun Suðurlandsvegar um eina akrein í svokallaðan 2+1 veg, frá gatnamótum við Þorlákshafnarveg og Hveragerði að gatnamótum við Hafravatnsveg. Þá lýkur lagningu 2+1 vegar alla leiðina frá Hveragerði að Hafravatnsvegi.

Samkvæmt tillögunni verður vegurinn breikkaður í núverandi vegstæði og lagður þannig að síðar verði einfalt að breyta honum í 2+2 veg með víravegriði.

Á heimasíðunni segir Vegagerðin, að samanburður á 2+1 vegi og 2+2 vegi á þessari leið sýni, að 2+1 vegur sé hagkvæmasta leiðin til að stórauka öryggi og flutningsgetu Suðurlandsvegar fram til 2025 - 2030.

Forhönnun og verkhönnun fyrsta áfanga vegarins lýkur nú um áramótin 2006 og er stefnt að því að bjóða út framkvæmdir við fyrsta áfanga í framhaldi af því. Á samgönguáætlun 2005 til 2008 er gert ráð fyrir að verja 311 milljónum króna í þessa framkvæmd, en rætt hefur verið um að leggja enn meira fé í þessa framkvæmd strax á næsta ári. Hafist verður handa um fyrsta hluta framkvæmdar yfir Hellisheiðina í upphafi árs 2007 og samhliða því er líklegt að vegarkaflinn frá enda klifurreinar fyrir ofan Lögbergsbrekku að Litlu kaffistofunni verði einnig lagður.

Mikil umræða hefur verið á Suðurlandi að undanförnu um Suðurlandsveg og hefur m.a. verið efnt til undirskriftasöfnunar á netinu þar sem hvatt er til þess að vegurinn verði tvöfaldaður án tafar.

Heimasíða Vegagerðarinnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka