Egilsstaðir - Kaupmannahöfn tvisvar í viku

Eftir Agnesi Bragadóttur agnes@mbl.is
Iceland Express hefur ákveðið að hefja áætlunarflug á milli Egilsstaða og Kaupmannahafnar næsta sumar. Flogið verður tvisvar í viku, þriðjudaga og föstudaga, samkvæmt upplýsingum Matthíasar Imsland, nýráðins framkvæmdastjóra Iceland Express.

"Við höfum tekið ákvörðun um að hefja flug á milli Kaupmannahafnar og Egilsstaða tvisvar í viku frá 1. júní á næsta ári og við ætlum að gera þessa tilraun fram á haustið," sagði Matthías í samtali við Morgunblaðið í gær.

Matthías sagði að flogið yrði á þriðjudögum og föstudögum. Farið yrði frá Egilsstöðum um hádegisbil áleiðis til Kaupmannahafnar en um morgunflug yrði að ræða frá Kaupmannahöfn til Egilsstaða. Í þetta verkefni yrðu trúlega notaðar Boeing 737-500- og Boeing 737-700-vélar.

Matthías sagðist sannfærður um að markaður væri fyrir þessa viðbót. "Við höfum fundið að það er mikill áhugi fyrir þessu flugi, bæði meðal heimamanna fyrir austan, erlendra starfsmanna á svæðinu og einnig í Kaupmannahöfn, þannig að okkur finnst það raunverulega vera þess virði að gera þessa tilraun," sagði Matthías.

Aðspurður hvert miðaverðið yrði frá Egilsstöðum til Kaupmannahafnar og aftur heim sagði Matthías: "Það verður mjög svipað verð á þessum ferðum og hefur verið í millilandafluginu hjá okkur frá Akureyri. Lægsta fargjaldið aðra leið, með sköttum, verður 7.900 krónur. Við byrjum að selja þessar ferðir strax eftir helgi."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert