Ökumenn ósáttir við að Vesturlandsvegi skyldi lokað

Þess voru dæmi að ökumenn hringdu í lögregluna í gær og kvörtuðu undan því að komast ekki leiðar sinnar um Vesturlandsveg þar sem honum hafði verið lokað í báðar áttir í kjölfar banaslyss er varð rétt norðan við gatnamót Þingvallavegar um 17.30 í gær. Karl Steinar Varlsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir þetta fólk hafa sýnt því lítinn skilning að þarna hefði orðið alvarlegt slys.

Tveir bílar sem ekið var í gagnstæðar áttir rákust saman, og lést ökumaður annars bílsins, en hinn slasaðist. Hann mun þó ekki vera í lífshættu.

Sjúkrabílar, tækjabíll Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og lögregla fóru tafarlaust á vettvang. Báðir ökumenn voru fluttir með sjúkrabílum á Slysadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss. Ökumaður annars bílsins var úrskurðaður látinn er komið var á slysadeild en hinn er ekki talinn í lífshættu, að sögn lögreglunnar í Reykjavík.

Austan rok og mikil slydda var á þessu svæði í kvöld og skyggni slæmt. Vesturlandsvegi var lokað í báðar áttir á meðan rannsókn slyssins stóð yfir. Lögreglan segir, að vegna aðstæðna á vettvanginum hafi ekki verið hægt að liðka til með umferð fyrr en að frumrannsókn lokinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert