Allir skipbrotsmennirnir hafa nú verið fluttir í land úr flutningaskipinu Wilson Muuga, sem strandaði sunnan við Sandgerði í morgun. Mennirnir voru selfluttir með Sif, þyrlu Landhelgisgæslunnar, í þremur ferðum. Þeir fara nú væntanlega á hótel, og lögreglan tekur síðan skýrslu af þeim. Ekki verður reynt að hagga skipinu af strandstað á meðan veður er óhagstætt, segir Jón Gunnarsson, framkvæmdastjóri Landsbjargar.
Skipið er enn á strandstað. Komin eru göt á skrokk þess og hefur eitthvað af hráolíu lekið frá því. Fulltrúar frá Umhverfisstofnun og Olíudreifingu vinna að mengunarvörnum á slysstað en útlit er fyrir að ekki takist að dæla olíu úr skipinu í dag.
Skipbrotsmennirnir fara nú væntanlega á hótel, og lögreglan tekur síðan skýrslu af þeim. Ekki verður reynt að hagga skipinu af strandstað á meðan veður er óhagstætt, segir Jón Gunnarsson, framkvæmdastjóri Landsbjargar.
Jón segir að á næstu dögum komi í ljós hvort hægt verði að losa olíuna úr skipinu. Landsbjörg verður með vakt á strandstað, en að öðru leyti er aðgerðum þar lokið í bili.