Björgunarvesti hins látna sagt hafa rifnað

Fram kemur á fréttavef danska blaðsins Jyllands-Posten að danski maðurinn sem lést við Íslandsstrendur í dag hafi heitið Jan Nordskov Larsen og verið tuttugu og fimm ára gamall. Þá kemur fram á vefnum að björgunarvesti mannsins hafi rifnað, er björgunarbátnum sem hann var um borð í hvolfdi, og að tveir félagar hans hafi lengi reynt að halda honum á floti. Þeir hafi hins vegar orðið að gefast upp þar sem vestið fylltist af sjó og dró manninn niður.

Átta skipverjar af varðskipinu Triton voru í björgunarbátnum þegar honum hvolfdi. Þeir sjö, sem björguðust, voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og allir lagðir inn á sjúkrahúsið til aðhlynningar. Sex þeirra hafa verið útskrifaðir en einn ofkældist og mun væntanlega dvelja á sjúkrahúsinu til morguns, að sögn lögreglunnar í Keflavík.

12 manna áhöfn flutningaskipsins Wilson Muuga, sem strandaði við Hvalsnes í Sandgerði í morgun, var flutt í land með þyrlu Landhelgisgæslunnar í dag. Mennirnir voru í kjölfarið fluttir til öryggis í læknisskoðun á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Keflavík.

Yfirheyrslur yfir skipverjum hefjast í dag hjá lögreglunni í Keflavík og verður framhaldið á morgun en yfirheyra þarf á þriðja tug manna vegna þessara tveggja sjóslysa.

mbl.is/KG
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert