Stefnt er að því að flytja stýrimann frá Landhelgisgæslunni og lögreglumann yfir í flutningaskipið, sem liggur strandað fyrir utan Sandgerði, með þyrlu svo þeir geti metið björgunaraðstæður og kannað skemmdir á skipinu. Mjög hvasst er á strandstað og brim mikið að sögn Jóns Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Sjór er kominn í vélarrúm skipsins.
Björgunarsveitir og björgunarbátar bíða enn átekta við strandstaðinn en flutningaskipið er um 3 mílur undan ströndinni. Danska varðskipið Tríton kom á staðinn um klukkan sex og annað varðskip frá Landhelgisgæslunni er væntanlegt.
Björgunarsveitarmenn eru í sambandi við skipverjana 12, sem eru rússneskir. Ekki er vitað til þess að nokkur þeirra sé slasaður.
Skipið var á leiðinni til Múrmansk í Rússlandi þegar skipið strandaði að sögn Jóns Gunnarssonar, en enginn farmur er í því.
Neyðarkall barst frá skipinu upp úr klukkan fjögur í nótt og hafa björgunaraðgerðir staðið yfir frá þeim tíma. Um 70 björgunarsveitarmenn eru á staðnum.