Að beiðni Vaktstöðvar siglinga hafa björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Grindavík og Sandgerði verið kölluð út til að aðstoða flutningaskip sem er strandað um 3 mílur fyrir utan Sandgerði. Einnig taka björgunarsveitirnar Suðurnes og Ægir frá Garði þátt í verkefninu. Sjór er kominn inn í vélarrúm skipsins, en áhöfnin, sem telur 12 menn, er þó ekki talin vera í hættu.
Tilkynning barst um klukkan fjögur í nótt. Skipið er 3.600 tonn að stærð en engin farmur er í skipinu samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu.
Björgunarsveitir eru komnar í fjöruna og björgunarbátar eru komnir í kring. Danska varðskipið Tríton er síðan væntanlegt.
Á þessari stundu er áhöfnin ekki talin vera í hættu, enda sýnist mönnum sem svo að skipið muni hvergi fara. Talsvert brim er á svæðinu og veðrið fer versnandi.