Jón Gunnarsson, framkvæmdastjóri Landsbjargar segir að hlutaðeigandi aðilar komi saman í fyrramálið til að ákveða hvernig reynt verður að ná olíu úr skipinu Wilson Muuga sem strandaði sunnan við Sandgerði í morgun. Skipið verður vaktað í nótt, en auk þess verður unnið að vegagerð svo hægt verði að koma olíubílum og öðrum tækjakosti sem næst skipinu.
Segir Jón að forgangsatriði sé að koma olíunni í land og koma í veg fyrir umhverfisslys, og að því hafi ekki verið hugað nákvæmlega að því hvernig reynt verði að koma skipinu aftur á flot. Jón segir menn þó hóflega bjartsýna á að það sé hægt.
Leki er kominn að skipinu og sjór í vélarrúmi og segir Jón ekki hægt að gera ráð fyrir öðru en að hann muni aukast enn frekar eftir sem á líður. Klukkan sex í kvöld var ekki að sjá að skipið hefði nokkuð haggast, háflóð var um klukkan fimm, og gekk nokkur sjór yfir skipið. Myrkur er og leiðinlegt veður og erfitt að átta sig á því hvort nokkur hreyfing er á skipinu að sögn Jóns.
Svipuðu veðri spáir næstu daga og má því búast við að aðstæður til að ná olíunni verði nokkuð erfiðar.