Búið er að finna lík mannsins sem lést þegar varðskipsmenn af danska varðskipinu Tríton gerðu tilraun til þess að fara að flutningaskipinu sem er strandað undan Sandgerði. Að sögn Gunnars Stefánssonar, sviðsstjóra björgunarsviðs Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, er unnið að því að sækja líkið. Veðrið á strandstað er slæmt og fer versnandi.
Gunnar segir menn vera að meta aðstæður. Unnið sé að því að fá þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-LÍF til þess að fljúga með menn um borð í skipið til þess að meta björgunaraðstæður. Þá segir Gunnar að menn séu að jafnframt meta það hvernig standa eigi að því að dæla olíu frá borði skipsins, en um 103 tonn af olíu eru í skipinu. Engin olía hefur enn farið í sjóinn.
Gunnar segir að nú sé að fjara út á strandstaðnum. Von er á háflóði um klukkan 17 í dag. Hann segir allt óvíst á þessari stundu hvort bjarga megi skipinu. Leki kom á skipið og hafa skipverjar unnið að því að dæla sjó úr því en ekki er vitað nánar með skemmdir.
Um 100 björgunarsveitarmenn eru á staðnum auk björgunarbáta, þyrlu og tveggja varðskipa.