Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur flutt fjóra skipbrotsmenn úr flutningaskipinu, sem strandaði suður af Sandgerði í nótt. Þyrlan lenti með mennina á grasbala á ströndinni og fór þegar aftur áleiðis til skipsins til að sækja fleiri.
Flutningaskipið Wilson Muuga, sem er 5700 lestir að stærð, strandaði á fimmta tímanum í morgun um 5 kílómetra suður af Sandgerði. Skipið var að koma frá Grundartanga þar sem það landaði kvarsi en það var ólestað þegar það strandaði. Skipverjar eru frá Rússlandi, Úkraínu og Póllandi. Wilson Muuga hét áður Selnes og var gert út af Nesskipum.
Göt eru komin á skrokk skipsins og hefur eitthvað af hráolíu lekið frá því. Fulltrúar frá Umhverfisstofnun og Olíudreifingu vinna að mengunarvörnum á slysstað en útlit er fyrir að ekki takist að dæla olíu úr skipinu í dag.
Skipverji af danska varðskipinu Triton fórst við björgunarstörf á strandstaðnum í morgun. Í samvinnu við danska sendiráðið er unnið að því að tilkynna ættingjum hins látna um atburðinn.