Undirbúa að skjóta línu um borð í flutningaskipið

Flutningaskipið Wilson Muuga á strandstað við Sandgerði.
Flutningaskipið Wilson Muuga á strandstað við Sandgerði. mbl.is/Brynjar Gauti

Björgunarmenn á strandstað við Sandgerði eru að undirbúa að skjóta línu út í flutningaskipið Wilson Muuga, en aðstæður til þess eru erfiðar vegna hvassviðris. Verður áhöfn skipsins væntanlega flutt í land með línu, en ekki þyrlu, eins og áður hafði verið ákveðið. Björgunaraðgerðir hafa dregist á langinn að því er virðist á meðan leitað var sátta milli tryggingarfélags skipsins og íslenskra yfirvalda um hvernig staðið skyldi að björgun áhafnarinnar.

Áhöfn skipsins neitaði í morgun að hafa samskipti við björgunarmenn, en áhöfnin mun hafa beðið fyrirmæla frá tryggingafélagi sínu um hvernig bregðast skyldi við. Guðmundur Ásgeirsson, fulltrúi Nesskips, sem gerir Wilson Muuga út, segir að væntanlega verði öll áhöfnin flutt í land með línu síðdegis í dag. Skipið er klettstöðugt á strandstað og ekkert amar að mönnunum um borð.

Rétt fyrir klukkan ellefu var skotið æfingaskoti með línu að skipinu og hefur síðan verið gerð ein tilraun til að skjóta línu um borð. Vegna þess hve aðstæður eru erfiðar þurfa björgunarmenn að færa sig alveg niður í flæðarmálið og skjóta línunni þaðan.

Fulltrúar Rannsóknarnefndar sjóslysa eru komnir á staðinn og teknir til starfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert