Björgunaraðilar eru svartsýnir á að ná Wilson Muuga yfirhöfuð af strandstað enda illmögulegt að nálgast það meira en 2,8 km frá hafi á öðru skipi auk þess sem háir garðar eru rétt aftan við skipið og læsa það inni.
Mat björgunaraðila, sem fylgdust með framvindu mála í gær á strandstað, var að nánast útilokað væri að ná skipinu á flot á ný. „Aðaláherslan er því á að ná olíunni úr skipinu," sagði Jón Gunnarsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í gær. „Aðalvinnan beinist að því að leggja veg niður að flakinu svo unnt verði að dæla olíunni á bíla."
Jón sagði það síðan mjög líklegt að framhaldið yrði á svipaðan hátt og með strand Vikartinds árið 1997 í Háfsfjöru með því að skipið yrði fjarlægt. „Þetta er stórt skip og því finnst manni líklegt að menn hljóti að reyna að ná því í sundur ef það liðast þá ekki í sundur af sjálfu sér."