Röng frásögn af beinbroti vistmanns á Grund

Frá dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund
Frá dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund mbl.is/Brynjar Gauti

Landlæknisembættið hefur lokið athugun á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund. Þar kemur fram að frásögn tímaritsins Ísafoldar um konu sem hafi beinbrotnað og verið látin liggja í meira en sólarhring áður en henni hafi verið komið til meðferðar á sjúkrahús sé augljóslega röng miðað við skrifleg gögn sem fyrir liggja, bæði frá Grund og bæklunarskurðdeild Landspítala - háskólasjúkrahúss.

Í grein Ísafoldar er sérstaklega getið um konu sem hafi beinbrotnað og verið látin liggja í meira en sólarhring áður en henni hafi verið komið til meðferðar á sjúkrahús. Landlæknir segir í greinargerðinni, að rétt sé, að einn vistmanna hafi mjaðmarbrotnað en það gerðist áður en blaðamaður byrjaði störf á deildinni. Af lýsingu hans megi hins vegar ráða við hvern er átt.

„Frásögn blaðamannsins er augljóslega röng miðað við skrifleg gögn sem fyrir liggja, bæði frá Grund og bæklunarskurðdeild Landspítala - háskólasjúkrahúss. Þá ber að nefna að engin áhrif hefur á horfur sjúklings, þótt aðgerð dragist og að ekki hefði verið gerð aðgerð þegar um nóttina, þótt sjúklingur hefði verið sendur á sjúkrahúsið seint um kvöldið áður. Gangur þessa máls er eðlilegur," segir í athugun landlæknisembættisins.

Niðurstaða embættisins er sú að ekki sé ástæða til aðgerða vegna málsins að öðru leyti en því að það láðist að láta viðkomandi starfsmann undirrita trúnaðaryfirlýsingu, en það mun í framtíðinni verða gert áður en nýir starfsmenn hefja störf.

Landlæknisembættið hefur afhent heilbrigðisráðherra ítarlega úttekt vegna fjölmiðlaumfjöllunar um dvalar- og hjúkrunarheimilið Grund vegna fjölmiðlaumfjöllunar um málefni stofnunarinnar.

Í tímaritinu Ísafold, 2. tbl. 1. árg., desember 2006, sem kom út þann 30.11. 2006, birtist greinin „Endastöðin“ þar sem blaðamaður lýsir aðbúnaði heimilisfólks og starfsfólks á Grund, en í greininni koma fram ýmsar athugasemdir blaðamannsins, sem þóttu gefa ástæðu til athugunar málsins af hálfu heilbrigðisyfirvalda.

Í greininni kemur fram að blaðamaðurinn starfaði á Grund í 5 virka daga og gaf á engan hátt til kynna að markmið ráðningarinnar væri að lýsa starfseminni á ákveðinni deild á Grund í tímaritsgrein. Greinina má skoða sem þunga ásökun á hendur yfirstjórn Grundar, en þó sérstaklega á stjórn og starfsfólk þeirrar deildar sem blaðamaðurinn vann á þennan tíma. Blaðamaður lætur að því liggja að ekki sé gætt hreinlætis á deildinni, vistmenn gangi um í slitnum og skítugum fötum og að eftirliti með vistmönnum sé ábótavant. Sérstaklega var nefnt að gömul kona hafi verið látin liggja bjargarlaus í langan tíma og ekki verið send á sjúkrahús, þrátt fyrir mjaðmarbrot, fyrr en sólarhring eftir byltu.

Farið var í fyrirvaralausa heimsókn á Grund, aðstæður skoðaðar og rætt við starfsmenn, stjórnendur og vistmenn á viðkomandi deild, auk þess sem rætt var við aðstandendur.

Samskipti útlendra starfsmanna ekki neinum erfiðleikum háð

Gagnrýnt er í greininni að margt starfsfólk af erlendu bergi brotið vinni á deildinni og tungumálaerfiðleikar séu til trafala. Eins og á öðrum hjúkrunarheimilum er talsvert um að starfsfólk sé af erlendu bergi brotið. Á þeirri deild sem um ræðir starfa 34 starfsmenn, en átta þeirra eru ekki íslenskir að uppruna. Sumir þeirra hafa búið hér lengi og eiga ekki í teljandi erfiðleikum með að gera sig skiljanlegan á íslensku. Svo mun einungis hafa verið varðandi einn starfsmann. Við skyndikomu undirritaðs á deildina voru augljóslega nokkrir starfsmenn af erlendu bergi brotnir, en samskipti við starfsfólkið á íslensku var ekki neinum erfiðleikum háð, að því er segir á vef landlæknisembættisins.

Rætt var einslega við nokkra vistmenn sem höfðu skýra hugsun. Allir báru þeir starfsfólkinu vel söguna, en voru sumir reiðir blaðamanninum fyrir skrifin. Jafnframt var rætt við einn aðstandanda, sem taldi vistmenn fá það sem þeir þyrftu á að halda og kaus sá aðstandandi að gera engar athugasemdir.

Hreinlæti var sérstaklega athugað og fannst ekkert athugavert við fyrirvaralausa skoðun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert