Ekki talið að rangar ákvarðanir hafi leitt til dauða sjóliða

Danska varðskipið Triton.
Danska varðskipið Triton. mbl.is/Kristinn

Talsmaður danska sjóhersins sagði í fréttum Ríkisútvarpsins, að enginn grunur leiki á að rangar ákvarðanir hafi leitt til þess, að danskur sjóliði af varðskipinu Triton lét lífið í vikunni þegar hann freistaði þess, ásamt sjö félögum sínum, að sigla á gúmmíbáti frá Triton til flutningaskipsins Wilson Muuga, sem strandaði við Hvalsnes.

Haft var eftir Tommy Jeziorski, talsmanni danska sjóhersins í flotastöðinni í Frederikshavn, að rannsóknarmenn danska sjóhersins hafi hafið skýrslutökur um borð í skipinu í gær og þeir muni ákveða hvort ástæða sé til að gefa út ákæru vegna slyssins. Það sé hins vegar ekki líklegt. Sjóliðar taki ævinlega áhættu þegar þeir ákveði að bjarga nauðstöddum. Ákvörðunin um að setja björgunarbátinn út hafi verið tekin að vel yfirlögðu ráði því allir viti vel að slík björgun sé hættuleg, sérstaklega við strendur Íslands. Enginn grunur leiki á um að ákvörðunin um að setja bátinn út hafi verið röng.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert