Kristján Geirsson, fagstjóri hjá Umverfisstofnun, segir vatn vera í botntönkum flutningaskipsins Wilsons Muuga og einhverja svartolíu efst í þeim. Þeir séu því ekki fullir af svartolíu. Vélarrúm skipsins virðist opið út í sjó og hafi smurolía dreifst um allt vélarrúmið þar sem sjór hefur flætt inn í það. Olían hafi borist þannig út í sjó en þó í litlu magni. Engar tilkynningar hafa borist um olíublauta fugla og engir fleiri olíuflekkir hafa sést á hafi.
„Forgangsröðin hjá okkur er alveg örugg. Númer eitt er að við teflum mannslífum ekki í hættu, númer tvö er umhverfið og við gerum engar aðgerðir ef við teljum að áhrifin á það versni. Númer þrjú eru eignirnar og skipið er ekki í umræðunni lengur, við sjáum um umhverfið og við erum að horfa á það og að huga að mannslífum,“ segir Kristján.
Kristján segir leiðindaveður hafa verið upp á hvern dag sem gert hafi undirbúning að olíudælingu erfiðan. „Það er hvasst, mikill öldugangur af suðvestri sem þýðir að aldan getur verið stór og það er stórstreymt. Þegar það er flóð, eins og hefur verið að kvöldi og nóttu, þá fer saman há sjávarstaða, vont veður og mikil alda,“ segir Kristján. Við slíkar aðstæður verði menn ekki skildir eftir um borð í skipinu þar sem ekki sé vitað hvað skipið þoli við slíkar veðuraðstæður.
Kristján segir að í dag hafi menn haft þrjá tíma til að vinna þar sem myrkvi fljótt og veður hafi versnað seinni partinn. „Til að undirbúa dælinguna og geta byrjað á henni þarf að dæla milli tanka og hræra upp í svartolíunni þannig að hún verði auðdælanlegri,“ segir Kristján. Ef allt gengur síðan upp og engar bilanir verða, geti tekið 10-20 tíma að dæla olíunni frá skipinu.
„Ef við höfum menn á vöktum þyrftum við að hafa 1-2 sólarhringa samfellt fyrir þetta. Auk þess þurfum við að koma slöngu yfir 300 metra vegalengd og hún þarf eiginlega að hanga. Þannig að við getum ekki dælt í land ef það er hávaðarok og mikil alda, eins og verið hefur á hverjum degi; og við þurfum að vera vissir um að skipið sé öruggt.“