Fram kom að gírókompásinn var bilaður fyrr í þessum mánuði og fór fram viðgerð 6. desember. Yfirstýrimaðurinn, sem var við stjórnvölinn þegar skipið strandaði, vissi ekki af viðgerðinni en sagði við sjóprófin að vitaskuld hefði hann sýnt meiri árvekni hefði hann vitað af biluninni. Um samskiptin við danska varðskipið Triton sagði Valeri Semjakov skipstjóri að áhöfnin hefði að beiðni Tritons gert klárt fyrir uppgöngu varðskipsliða sem sendir voru á gúmbát. Áhöfnin hefði sagt Triton-mönnum að illmögulegt væri að komast um borð í síversnandi öldugangi. Hann hefði ekki verið látinn vita af því að bátur hefði verið sendur af stað frá varðskipinu.
„Við gátum einvörðungu skoðað það sem var í kringum okkur. Eftir 20–30 mínútur sáum við gúmbát á bakstafni en óljóst var með fjölda bátsmanna. Hvort þeir voru sex eða sjö vissi ég ekki en báturinn var í ákveðinni fjarlægð frá skipinu, fór fram fyrir það og sneri síðan við. Við fylgdumst með en vorum ekki í sambandi við mennina og síðan hvarf báturinn út í myrkrið."
Nánar er fjallað um sjóprófin í Morgunblaðinu í dag.