Dælingu olíu úr síðutönkum flutningaskipsins Wilson Muuga, sem situr á strandstað skammt suður af Sandgerði, er nú við það að ljúka samkvæmt upplýsingum Gottskálks Friðgeirssonar, fulltrúa Umhverfisstofnunar á strandstað. „Það er búið að dæla í allan dag og hefur það gengið mjög vel þannig að nú eru bara dreggjarnar eftir,” sagði hann er blaðamaður mbl.is náði tali af honum fyrir stundu. „Þetta er sem sagt alveg að klárast og þegar það verður komið verður bráðamengunarhætta liðin hjá.”
Gottskálk sagði að þegar búið væri að dæla dreggjunum í land yrðu mennirnir, sem hafa verið að störfum í skipinu í á þriðja sólarhring, sóttir og að þegar þeir væru farnir í land yrði ekki meira gert á strandstaðnum í bili.
Talið er að um tíu tonn af olíu, blandaðri sjó, sé enn í lest skipsins og segir Gottskálk standa til að halda fund um framhald hreinsunaraðgerða á strandstaðnum í kvöld. Þó sé ljóst að ekki verði gert meira í dag þar sem menn þurfi að hvíla sig og þyrluflugmenn geti einungis athafnað sig í björtu við slíkar aðstæður.