Guðmundur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Nesskipa hf. segir ekki liggja fyrir hver næstu skref verða varðandi flutningaskipið Wilson Muuga, sem situr á strandstað skammt suður af Sandgerði, en verið er að ljúka olíudælingu úr síðutönkum skipsins.
„Það hefur verið lögð áhersla á mengunarþáttinn og nú er búið að tryggja hann,” sagði Guðmundur í samtali við blaðamann mbl.is í dag. „Það er ljóst að það verða engir stórir hlutir gerðir fyrir áramót enda er tími lítill og birtu- og veðurskilyrði ótrygg.”
Þá sagði hann nokkra daga til eða frá ekki skipta höfuðmáli varðandi björgun verðmæta úr skipinu enda liggi fyrir að þyrla verði ekki nýtt til þess þar sem slíkt yrði allt of dýrt.