Davíð Egilson, forstjóri Umhverfisstofnunar, segir ljóst að umtalsvert magn af olíu hafi farið í sjóinn þegar skipið tók niðri en ekki sé unnt að gefa upp nákvæma tölu fyrr en dælingu sé alveg lokið.
"Það liggur þó fyrir að af þessum 17 tonnum af dísilolíu sem voru um borð voru að minnsta kosti 14 tonn í botntanki sem er það rifinn að hverfandi líkur eru á að olía sé í honum," segir Davíð og bætir við að sú olía hafi lekið út í sjó.
Hann segir að botntankar skipsins hafi rifnað við strandið og þá hafi eitthvað lekið út af olíu. Auk þess hafi streymt úr tönkunum á Þorláksmessu þegar stórstraumsfjara var.
Hins vegar sé ekki unnt að segja til um hve mikið hafi lekið út þar sem eitthvað af olíunni hafi farið yfir í lestina vegna einstreymisloka sem settir voru við tankana, en þegar sjór hækkaði lyftist vökvinn í tönkunum og barst í lestina.
Davíð tekur fram að þrátt fyrir lekann sjáist nánast ekkert af olíu á ströndum og veðurhamurinn virðist hafa brotið olíuna niður.