Vestlendingur ársins 2006 er Bjarni Kristinn Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri í Borgarnesi. Það er Skessuhorn – fréttaveita Vesturlands sem veitir þessa viðurkenningu árlega, nú í 9. skiptið. Lesendur Skessuhorns sendu inn tilnefningar og fékk Bjarni Kristinn flest atkvæði, en alls fengu 38 einstaklingar tilnefningar.
Í 2. til 9. sæti með þrjár tilnefningar eða fleiri voru í stafrófsröð: Andrés Konráðsson Loftorku Borgarnesi, Ármann Ármannsson Mið Fossum, Ásdís Ingimarsdóttir Borgarnesi, Kjartan og Sigríður Margrét í Landsnámssetri Íslands, Ragnheiður Runólfsdóttir Akranesi, Sigurborg Sandra Pétursdóttir Grundarfirði, Slökkvilið Akraness og Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA.
Viðurkenninguna hlýtur Bjarni fyrir hönd allra þeirra sem þátt tóku í farsælu björgunar- og slökkvistarfi á Mýrum í mars á sl. ári og sem tókst einkar vel miðað við aðstæður sem líkja má við hamfarir. Uppúr stóð að fólki, fénaði og mannvirkjum var bjargað og talið er að gróður muni að mestu leyti jafna sig í tímans rás.
Bjarni Kristinn er slökkviliðsstjóri í Borgarnesi og féll það því í hans hlut að stjórna slökkvistarfi á Mýrum en að því kom einnig fjöldi annarra slökkviliða, björgunarsveitir, bændur og aðrir sjálfboðaliðar. Í ítarlegu viðtali sem birtist við Bjarna Kristinn í Skessuhorni í dag segist hann einungis taka við viðurkenningunni fyrir hönd allra þeirra er þarna komu að málum, jafnt slökkviliðs- og björgunarmönnum, bændum, lögreglu, matráðum og öðrum sem lögðu hönd á plóg í þessum tveggja til þriggja sólarhringa slag við elda sem ógnuðu bæði mönnum, skepnum og mannvirkjum. Bjarni segir það af og frá að þessi heiður tilheyri honum einum, að því er segir í tilkynningu.