Á síðasta ári fóru 1.856.568 ökutæki um Hvalfjarðargöng og er það 9,28% aukning frá árinu 2005 að sögn Gylfa Þórðarsonar framkvæmdastjóra Spalar, sem á og rekur Hvalfjarðargöng.
Þetta kemur fram á fréttavefnum Skessuhorn. Fóru því 5.086 ökutæki um göngin á hverjum sólarhring að meðaltali.
Göngin voru hönnuð fyrir meðalumferð allt að 5.000 ökutækja á sólarhring og var því umferðin á síðasta ári umfram þau mörk. Þess má einnig geta að þegar göngin opnuðu 1998 vonuðust ráðamenn Spalar eftir að meðalumferð á sólarhring yrði um 1.700 ökutæki og þótti það nokkur bjartsýni, að því er segir á vef Skessuhorns.