Hreinsun olíu úr lest Wilson Muuga lokið

Olíu dælt úr Wilson Muuga á strandstað
Olíu dælt úr Wilson Muuga á strandstað Þorvaldur Örn Kristmundsson

Í gær var lokið við að hreinsa olíu úr lest Wilson Muuga og búnaður og mannskapur hefur verið fluttur í land. Í allt náðust um 40 tonn í þessum áfanga en það er mun meira en búist var við. Umhverfisstofnun telur að hættan á bráðamengun hafs og stranda sé ekki mikil og því bíður það eiganda skipsins að fjarlægja flakið af strandstað.

Í gær fóru starfsmenn Olíudreifingar og Framtaks aftur út í Wilson Muuga með það fyrir augum að dæla upp olíu úr lest skipsins og setja í færanleg kör sem síðan yrðu flutt í land með þyrlu, að því er segir í frétt frá Umhverfisstofnun.

„Verkið sóttist mjög vel og þegar á reyndi var mun meira af olíu í lestinni en búist var við en um 40 tonn af olíu úr lestinni hafa verið flutt í land. Með þessu hefur skipið verið hreinsað af olíu eins hægt er að ná með góðu móti. Í allt hafa ríflega 130 tonn af svartolíu, smurolíu og glussa verið tekin úr skipinu frá því að aðgerðir Umhverfisstofnunar hófust. Þrátt fyrir þetta er hugsanlegt að einhverja olíu sé enn að finna milli banda í botntönkum skipsins og verður fylgst með því hvort eitthvað pumpist upp í lestina næstu daga.

Aðgerðirnar hafa tekist vel en við slíkar aðstæður er aldrei unnt að tryggja að öll olía náist og því verður að gæta að vörnum gegn hugsanlegri mengun af hennar völdum þegar skipið verður tekið af strandstað.

Umhverfisstofnun telur að með þessum aðgerðum sé hættan á bráðamengun hafs og stranda ekki mikil og nú bíður eiganda skipsins að fjarlægja flakið af strandstað í samræmi við 20 gr. laga nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert