Lögfræðingar samgönguráðuneytisins og Siglingastofnunar eru að fara yfir lögfræðileg álitamál í sambandi við hreinsun vegna strands Wilsons Muuga við Hvalsnes. Jóhannes Tómasson, upplýsingafulltrúi samgönguráðuneytisins, segir að þeirri vinnu verði lokið eftir helgi.
Eigendur flutningaskipsins Wilsons Muuga telja sér ekki skylt að greiða meira en 74 milljónir vegna hreinsunar á strandstað. Þeir vísa til ákvæða siglingalaga um takmarkaða ábyrgð vegna strands. Ef eigandi skipsins tekur ákvörðun um að fjarlægja skipið eiga ákvæði um takmarkaða ábyrgð ekki lengur við. Ljóst er að kostnaður við að hreinsa olíu úr skipinu og fjarlægja flakið er miklu meiri en þessar 74 milljónir. Ekkert liggur þó fyrir um hver kostnaðurinn gæti orðið.
Jóhannes sagði að lögfræðingar samgönguráðuneytisins og Siglingastofnunar myndu skoða þau lögfræðilegu álitamál sem uppi væru í þessu máli. Þar þyrfti bæði að horfa til siglingalaga og laga um verndun hafs og strandar. Jóhannes sagði að einnig yrði skoðað hvort eitthvað skorti upp á innleiðingu laga hér á landi og eins hvort þörf væri á að skoða breytingu á gildandi lögum.