Skipverji sem slasaðist á togaranum Sólbaki RE í gær er á batavegi á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupsstað, að sögn læknis sem sér um hann þar. Togvír slitnaði og slóst í bakið á manninum og mun hann hafa beinbrotnað við það. Læknir segir líðan hans góða og að hann verði á sjúkrahúsinu næstu daga. Sólbakur var við veiðar á Hvalbaksgrunni úti fyrir Berufirði þegar slysið varð.
Að sögn Ágústs Torfa Haukssonar, framkvæmdastjóra útgerðarinnar Brims sem á Sólbak, var haft samband við lækni þegar maðurinn slasaðist og að hans mati hafi ekki þurft að kalla til þyrlu til að flytja manninn undir læknishendur. Togarinn hélt til Fáskrúðsfjarðar þar sem læknir skoðaði manninn og var hann þaðan fluttur til Neskaupsstaðar.