Engin niðurstaða fékkst á fundi fulltrúa útgerðar Wilsons Muuga og Umhverfisstofnunar í gær, að sögn Guðmundar Ásgeirssonar, stjórnarformanns Nesskipa. Á fundinum var farið yfir málið og lögðu fulltrúar Nesskipa þar fram drög að mögulegum aðgerðum.
Guðmundur vildi ekki tjá sig nánar um þær nú, enda viðræðurnar á viðkvæmu stigi, en sagði stefnt að því að hitta fulltrúa Umhverfisstofnunar aftur í dag.
Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra sagði á Alþingi í gær það vera ótvírætt að eiganda skipsins bæri að fjarlægja flakið og hefði hann sex mánuði til þess. Guðmundur sagði að lögfræðingar sem ynnu fyrir Nesskip túlkuðu lögin öðruvísi og teldu að fremur bæri að horfa til siglingalaga en laga um verndun hafs og stranda í þessu tilviki.