"Frá okkar bæjardyrum séð eru þessar framkvæmdir ekki heimilar eins og er og þær hafa því verið stöðvaðar," sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður Skipulagsráðs. "Umsókn um framkvæmdaleyfið er enn til meðferðar hjá okkur og við afgreiðum hana þegar umsagnirnar liggja fyrir. Þetta er mjög viðkvæmt svæði og það verður að fara um það með mikilli gætni."
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri í Reykjavík og Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri í Kópavogi undirrituðu á liðnu ári samkomulag sveitarfélaganna vegna gerðar vatnsveitu fyrir Kópavog og lögsögumörk við Vatnsendakrika. Hanna Birna sagði að í samkomulaginu væri miðað við að framkvæmdir gætu hafist innan tiltekins tíma, en það feli þó ekki í sér framkvæmdaleyfi. Samkvæmt lögum megi ekki hefja framkvæmdir fyrr en það leyfi hafi verið gefið út.
Hanna Birna sagði stefnt að því að fulltrúar Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar ræði stöðu málsins á mánudaginn kemur.
Ómar Stefánsson, formaður bæjaráðs Kópavogs, sagði þá hafa staðið í þeirri trú að búið væri að gefa út framkvæmdaleyfið. Þegar óskað hafi verið eftir því að framkvæmdir yrðu stöðvaðar hefði verið sjálfsagt að verða við því. Ómar sagði að í samningi sveitarfélaganna komi fram að framkvæmdaleyfið verði gefið út innan mánaðar og að meira en mánuður sé liðinn frá undirritun samningsins. "Þetta er í eðlilegu ferli og við hljótum að fá framkvæmdaleyfið á næstu dögum," sagði Ómar.
Reynt verður að vanda allan frágang í Heiðmörk eftir bestu getu, að sögn Ómars. Hann sagði að lagnaleiðin hafi verið fundin í góðri samvinnu við Skógræktarfélag Reykjavíkur á sínum tíma.
Framkvæmdin var tilkynningarskyld til ákvörðunar um matsskyldu. Niðurstaða Skipulagsstofnunar í apríl í fyrra var að framkvæmdin væri ekki háð umhverfismati. Í niðurstöðu stofnunarinnar segir m.a.:
"Skipulagsstofnun telur að við framkvæmdirnar sé brýnt að óþarfa rask verði ekki á svæðinu. Sýnt hefur verið fram á að framkvæmdin sé ekki líkleg til að hafa veruleg áhrif á gróður sem ekki sé hægt að bæta með fyrirhuguðum vinnubrögðum við frágang."