Bæjarráð Mosfellsbæjar ákvað í morgun að deiliskipulagsgögn fyrir Helgafellsveg yrðu endurskoðuð og skipulagstillagan ásamt umhverfisskýrslu auglýst að nýju, samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og nýjum lögum um umhverfismat áætlana.
Þann 21. febrúar óskaði Mosfellsbær eftir því við Skipulagsstofnun að hún skæri úr um það hvort deiliskipulag Helgafellsvegar félli undir ný lög um umhverfismat áætlana, sem tóku gildi á miðju síðasta ári. Stofnunin hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að svo sé og er ákvörðun bæjarráðs tekin í framhaldi af því, að því er kemur fram á vefsíðu bæjarins.
Varmársamtökin segja á heimasíðu sinni, að ákvörðun Skipulagsstofnunar sé mikið fagnaðarefni fyrir samtökin, sem hafi barist fyrir því að bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ vinni faglega úttekt á áhrifum tengibrautar á náttúru Varmársvæðisins, íbúa og atvinnustarfsemi í grennd við Helgafellshverfi og afleiðingar fyrir menningarsögu Mosfellsbæjar. Samtökin hafi jafnframt ítrekað skorðað á bæjarstjórn að gera faglega úttekt á öðrum valkostum varðandi legu tengibrautarinnar.