Talið að elding hafi valdið skammhlaupi í háspennulínu Landsnets

Landsnet annast rekstur á öllum meginflutningslínum rafmagns á Íslandi og …
Landsnet annast rekstur á öllum meginflutningslínum rafmagns á Íslandi og allar dreifiveitur og stórnotendur á landinu eru tengdir við flutningskerfið. mbl.is/Brynjar Gauti

Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti sló 220 kV Kolviðarhólslínu 1 sem liggur milli aðveitustöðvanna á Kolviðarhóli og Geitháls, út í nótt klukkan 3:28. Talið er að kröftug elding hafi valdið skammhlaupi milli allra þriggja fasa línunnar og varð verulegt spennufall á meðan trufluninni stóð.

Um 100 millisekúndur (0,1sekúnda) liðu frá því að eldingunni sló niður og þar til línan hafði tengd frá flutningskerfinu og segir Landsnet, að það sé í samræmi við hönnunarforsendur Landsnets. Fyrirtækið segir einnig, að miðað við þann stutta tíma sem truflunin varði hefði ekki undir neinum kringumstæðum átt að koma til truflana hjá aðilum sem tengdir eru við flutningskerfi Landsnets.

„Samkvæmt upplýsingum sem borist hafa til Landsnets urðu útleysingar á starfsemi álvera Norðuráls á Grundartanga og ALCAN í Straumsvík. Einnig varð truflun í nokkrum virkjunum sem annað hvort stöðvuðust eða keyrðu niður framleiðslu í kjölfar truflunarinnar. Þessu til viðbótar hefur frést af truflunum sem tengjast dælingu í Reykjavík.

Afleiðingar truflunarinnar koma á óvart í ljósi þess að viðbrögð varnarbúnaðar í flutningskerfi Landsnet voru eðlileg. Því mun Landsnet gera ítarlega úttekt á atburðarrás truflunarinnar og kalla eftir því að varnarbúnaður aðila sem tengjast flutningskerfinu verði betur samræmdur til að komast megi hjá truflunum eins og þeim sem urðu í nótt,“ segir í tilkynningu frá Landsneti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert