Ákæru á hendur forstjóra olíufélaga vísað frá

Frá málflutningi um frávísunarkröfuna í héraðsdómi.
Frá málflutningi um frávísunarkröfuna í héraðsdómi. mbl.is/Sverrir

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að vísa frá ákæru gegn þremur núverandi og fyrrverandi forstjórum olíufélaga. Samkvæmt upplýsingum frá Hæstarétti kváðu fimm dómarar upp dóminn og tveir þeirra skiluðu sératkvæði. Annar vildi staðfesta úrskurð héraðsdóms en á öðrum forsendum en hinn vildi fella úrskurðinn úr gildi og leggja fyrir héraðsdóm að taka ákæruna fyrir.

Ríkissaksóknari gaf út ákæru um miðjan desember á hendur Einari Benediktssyni, forstjóra Olíuverzlunar Íslands, Geir Magnússyni, fyrrverandi forstjóra Olíufélagsins – sem nú heitir Ker, og Kristni Björnssyni, fyrrverandi forstjóra Skeljungs. Voru þeir ákærðir fyrir meint brot gegn samkeppnislögum, fyrir að hafa haft ólögmætt samráð, ýmist sjálfir eða fyrir milligöngu undirmanna, með það að markmiði að hafa áhrif á og koma í veg fyrir samkeppni.

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði ákærunni frá, m.a. á þeim forsendum að 10. grein samkeppnislaga veiti ekki viðhlítandi lagastoð til að unnt sé að refsa einstaklingum fyrir þá háttsemi, sem þar er lýst, en ákærðu beri að njóta alls skynsamlegs vafa í því sambandi.

Hæstiréttur segir, að fyrirkomulag samkeppnislaga hafi ekki verið nógu skýrt um meðferð máls ef grunur vaknaði um að brotið hefði verið gegn lögunum, og þar af leiðandi óskýrt hvernig með skyldi fara ef tilefni þætti til opinberrar rannsóknar jafnhliða meðferð samkeppnisyfirvalda og hvenær beita ætti refsiviðurlögum.

Þetta hafi meðal annars átt við þá stöðu forstjóranna þriggja, að taka þátt í viðræðum og samningum við Samkeppnisstofnun og veita henni upplýsingar, en fella á sama tíma á sig sök með því að málið var síðar tekið til refsimeðferðar. Taldi Hæstiréttur því ekki talið nægjanlega fram komið, að í lögreglurannsókninni, sem fór fram í kjölfar meðferðar samkeppnisyfirvalda, hefðu þeir, eins og þeirri rannsókn var hagað, fengið notið þeirra réttinda sakborninga, sem mælt sé fyrir um í 70. gr. stjórnarskrárinnar og meginreglum laga um meðferð opinberra mála. Því taldi Hæstiréttur að ákæra yrði ekki reist á þeirri lögreglurannsókn og var niðurstaða héraðsdóms því staðfest.

Fimm dómarar kváðu upp dóminn en tveir þeirra, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson, skiluðu sératkvæði. Gunnlaugur var sammála niðurstöðu meirihluta dómsins en á öðrum forsendum. Ólafur Börkur vildi hins vegar fella úrskurð héraðsdóms úr gildi og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka