Samorka styrkir gerð brunna í Afríku

Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, hefur ákveðið að styrkja vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Afríku um kr. 600.000, eða sem nemur kostnaði við gerð fjögurra brunna sem samtals munu sjá allt að fjögur þúsund manns fyrir aðgangi að hreinu neysluvatni.

Styrkurinn var afhentur á ráðstefnu Samorku um Ísland og Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna í vatns- og fráveitumálum, sem haldin var á alþjóðlegum degi vatnsins 22. mars.

Við afhendingu styrksins sagði Eiríkur Bogason framkvæmdastjóri Samorku, að þar sem Samorka hefði skilað nokkrum rekstrarafgangi á liðnu ári, einkum vegna tekna af norrænni ráðstefnu um öryggi drykkjarvatns, hefði stjórn samtakanna talið viðeigandi að verja hluta afgangsins til verðugs málefnis sem tengdist mikilvægi hreins drykkjarvatns.

Eiríkur sagði ráðstefnu um Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna í vatns- og fráveitumálum einkar viðeigandi tilefni og sagði Íslendinga búa við mikil forréttindi hvað varðaði aðgang að miklu og heilnæmu neysluvatni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert