Smjörklípa í Kastljósi

Finnur Árnason, forstjóri Haga, hefur sent Morgunblaðinu eftirfarandi yfirlýsingu:

    Í gær var sýnt í Kastljósi Ríkissjónvarpsins viðtal Sigmars Guðmundssonar við Kristin Björnsson, fyrrum forstjóra Skeljungs. Fyrrum og núverandi olíuforstjórar hafa um langt skeið setið persónulega undir þungum sökum vegna samráðs olíufélaganna. Tæplega er hægt að setja sig í spor þeirra einstaklinga, sem búa við þá réttaróvissu sem þeir hafa búið við í allt of langan tíma. Í því ljósi er skiljanlegt að í kjölfar dóms Hæstaréttar í síðustu viku sé mikill léttir þeirra á meðal.

    Almennt átti ég erfitt með að skilja megininntak viðtalsins og ekki síður tilgang þess. Hvort það átti að vera tilraun til hvítþvottar veit ég ekki, en á margan hátt endurspeglast viðtalið í forvitnilegri spurningu Sigmars: "Þannig að þú viðurkennir það að þú vissir að þið voruð að brjóta lög á þessum tíma?" Og í kjölfarið kom þetta einfalda svar frá Kristni: "Ég er, sko ég hugsa að menn hafi áttað sig á því sko þegar upp var staðið hvort að menn gerðu sér grein fyrir því vegna þess að það að einhver sko, einhver viðskipti komust á milli stórs félags eins og olíufélags og einhvers annars stórs aðila er ekki eitthvað sem gerist á einum degi. Sko, þetta er mikill undirbúningur, þetta eru miklar fjárhæðir og háar og þetta eru svona hlutir sem eru kannski lengi í bígerð. Ég tala nú ekki um ef þú ert að ná þér í einhvern nýjan kúnna og eitthvað þannig að gerast." Sjálfur skil ég varla svarið, en þeir sem betur til þekkja leggja út frá því að ekki hafi verið um játningu að ræða. Í kjölfarið átaldi Kristinn Samkeppnisstofnun og Samkeppniseftirlitið. Á þeirri stundu var Sigmar ekki einn um að fá á tilfinninguna að ábyrgðin lægi ekki hjá Kristni, heldur einhvers staðar annars staðar. Þó að þjóðin hafi séð margar og stórar smjörklípur um dagana, kom Kristinn með eina þegar hann sagði: "Ég er hins vegar að segja við þig, get alveg sagt það við þig að ég held til dæmis að samskipti forstjóra olíufélaganna á því tímabili sem að þarna er um að ræða frá 1991 eða 1993 til 2001 þau eru alveg örugglega minni heldur en til dæmis bankastjóra bankanna í dag eða þá segjum bara rekstraraðila stærstu matvöruverslananna í dag. Ekki sko fyrir 10 árum heldur í dag, þau eru örugglega minni og ég bara fullyrði það vegna þess að ég veit það." Þarna kemur Kristinn fram með ásökun, m.a. á hendur rekstraraðila stærstu matvöruverslananna. Ég hlýt að líta svo á að hún snúi m.a. að Högum. Þessi ásökun er bæði röng hvað Haga varðar og ekki síður ósvífin. Kristinn fullyrðir að hann hafi vitneskju um samskipti. Ég hvet Kristin Björnsson til þess að snúa sér til Samkeppniseftirlitsins, þar sem hann virðist hafa verið heimagangur í rúm fimm ár og koma þessum upplýsingum á framfæri. Það verður að teljast með ólíkindum að fyrrum forstjóri Skeljungs, sem hýsti auk þess hinn fræga fingrafarafund, skuli nota svo ómerkilega smjörklípuaðferð sem þessa."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka