Áfallinn kostnaður vegna aðgerða við að koma í veg fyrir tjón vegna brennslu olíu Wilson Muuga sem strandaði við Sandgerði nemur 69 milljónum króna. Samkomulag hefur náðst á milli íslenska ríkisins og eigenda skipsins um flutning skipsins af strandstað og er gert ráð fyrir að það verði dregið út á stórstraumsflóði 16.-18. maí. Þetta kom fram á fundi Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra með blaðamönnum nú í hádeginu.
Þar kom fram að Umhverfisstofnun hefur unnið fram til þessa að björgun Wilson Muuga í samræmi við ákvæði laga um varnir og mengun hafs og stranda til að koma í veg fyrir tjón vegna brennslu olíu skipsins. Þeim árangursríku aðgerðum er nú lokið, að sögn umhverfisráðherra. Áfallinn kostnaður vegna þessara aðgerða er nú um 69 milljónir króna.
Umhverfisstofnun og eigendur skipsins telja verulegar líkur til þess að hægt verði að fjarlægja skipið af strandstað að undangengnum nauðsynlegum undirbúningsaðgerðum. Áætlaður kostnaður er 40 milljónir króna og verður hann greiddur af eigendum skipsins og íslenska ríkinu. Hlutur ríkissjóðs í kostnaðinum verður 15 milljónir króna. Andvirði flaks skipsins verður skipt á milli eigenda skipsins og ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við flutning þess og hlutfalli kostnaðar hvors um sig af framkvæmd verksins. Eigendur skipsins munu stjórna aðgerðum á strandstað og fulltrúi umhverfisstofnunar mun hafa eftirlit með verkinu.
Á næstu vikum verður unnið að því að þétta skipið og flutningur af strandsstað undirbúinn. Gert er ráð fyrir því að skipið verði dregið út á stórstraumsflóði 16.-18. maí komi veður eða aðrar ytri aðstæður í veg fyrir það verður reynt að hefja aðgerðir við fyrsta tækifæri.