Byrjað að draga Wilson Muuga af strandstað

Byrjað er að draga Wilson Muuga af strandstaðnum.
Byrjað er að draga Wilson Muuga af strandstaðnum. mbl.is/Golli

Byrjað var að draga flutningaskipið Wilson Muuga af strandstað nú síðdegis og er skipið nú þegar komið talsvert frá staðnum þar sem það strandaði við Hvalsnes. Dráttarbáturinn Magni dregur skipið og að auki taka tveir bátar þátt í björgunartilraununum, og freista þess að stýra flutningaskipinu út rennu, sem liggur beint fyrir aftan það.

Talsvert hvasst er á svæðinu en vindurinn stendur beint aftan á skipið og virðist ekki hafa valdið neinum erfiðleikum.

Fyrir utan viðgerðir á vettvangi hefur þurft að undirbúa sjálfan dráttinn með því að bora sérstakar holur í lítil sker úti í sjó aftan við skipið en í þau verða fest stýritóg til að fyrirbyggja að skipið snúist í vindi þegar tekið verður í það. Þegar drátturinn hefst er skipið sem múlbundið við skerin og þarf að draga það út um einskonar hlið á milli þeirra. Þá eru tvö stýritóg á hvoru borði að framanverðu og ná upp í klappir við ströndina og loks er fimmta tógið fest í stefnið og bundið við land.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert