Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur boðað til fréttamannafundar kl. 18 vegna brunans í Austurstræti og Lækjargötu. Þar mun Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri fara yfir atburðarásina og svara spurningum fjölmiðla.
Slökkvistörf eru enn í fullum gangi og er byrjað að rífa Austurstræti 22 þar sem skemmtistaðurinn Pravda er til húsa. Allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu, um 70-80 manns, vinna nú við slökkvistörf og gera má fastlega ráð fyrir því að þeim muni ekki ljúka fyrr en seint í kvöld. Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins til aðstoðar eru sex slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Suðurnesja.
Vitað er um gaskútageymslu á þaki eins hússins sem kviknaði í en samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, var allt reynt til að kæla kútana og hefur það gengið vel.
Ekki er vitað um upptök eldsins en slökkvistarf gengur ágætlega.