Húsaleiga kærir Ísland í dag

Húsaleiga ehf. hefur sent frá sér yfirlýsingu, þar sem kemur fram að lögmanni fyrirtækisins hafi verið falið að leggja fram kæru á hendur forsvarsmönnum sjónvarpsþáttarins Íslands í dag, í kjölfar umfjöllunar þáttarins um aðbúnað erlendra verkamanna á Íslandi.

Í yfirlýsingunni segir, að skorað hafi verið á ritstjóra Íslands í dag að hætta við áður auglýsta umfjöllun í þættinum í kvöld um Húsaleigu og forsvarsmenn félagsins, enda fyrirséð að öðrum kosti, að um auknar refsi- og skaðabótakröfur verði að ræða í fyrirhuguðu dómsmáli. Segir í yfirlýsingunni, að ritstjóri Íslands í dag hafi hafnað því að bregðast við þessari áskorun.

Þá kemur fram, að dagskrárgerðarmenn Íslands í dag hafi í dag boðið forsvarsmönnum Húsaleigu í viðtal, svo fyrirtækið geti skýrt sína afstöðu til þeirra ásakana sem komið hafi fram í þættinum. Þessu boði hafi forsvarsmenn fyrirtækisins hafnað að vel ígrunduðu máli. Afstaða Húsaleigu til fréttaflutnings þáttarins liggi ljós fyrir og komi m.a. fram í yfirlýsingu, sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Ennfremur væri óeðlilegt að forsvarsmenn Húsaleigu þyrftu að verja hendur sínar í fjölmiðli sem fyrirtækið stendur í málaferlum við.

Ekki náðist í Steingrím Sævarr Ólafsson, ritstjóra Íslands í dag nú síðdegis en fram kom í fréttum Stöðvar 2 í dag, að ritstjórn þáttarins stæði við umfjöllunina og myndi halda henni áfram í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert