Ferðast um heiminn á vélhjólum á 90 dögum

Það er óhætt að segja að ævintýraþráin og leit eftir nýjum áskorunum reki bræðurna Einar og Sverri Þorsteinssyni áfram, en þann 8. maí nk. hefst ferðalag þeirra í kringum hnöttinn á vélhjólum. Að sögn þeirra bræðra er þetta í fyrsta sinn sem Íslendingar gera þetta að því þeir best vita. Ef allt gengur samkvæmt áætlun mun ferðin taka þrjá mánuði og þá verða rúmlega 30.000 km að baki.

Að sögn þeirra bræðra hefur þessi hugmynd verið lengi í farvatninu enda séu þeir miklir ferða- og vélhjólaáhugamenn og hafa ferðast mikið saman. „Þetta er búið að vera gerjast í langan tíma, en nú er lag að láta drauminn rætast,“ segir Sverrir. Sjálfur undirbúningurinn fyrir þessa ferð hófst þó ekki af alvöru fyrr en um áramótin. Undirbúningsvinnan hefur verið mikil enda að miklu að huga fyrir langferð sem þessa. Til að nefna nokkur dæmi þá þurfa öll pappírsmál að vera í lagi, s.s vegabréfsáritanir, en þeir munu á ferðalagi sínu heimsækja 13 lönd í þremur heimsálfum. Þá eru bræðurnir bólusettir í bak og fyrir, og þá skiptir máli að sjálfir fararskjótarnir séu vel búnir fyrir ferðina, bæði hvað varðar öryggisútbúnað og annað.

Bræðurnir leggja af stað sem fyrr segir frá Reykjavík þann 8. maí nk. Þaðan ferðast þeir til Seyðisfjarðar, en daginn eftir sigla þeir með ferjunni Norrænu til Færeyja. Svo er áætlunin að ferðast til Noregs, Svíþjóðar, Finnlands, Eistlands, Lettlands, Litháens, Hvíta-Rússlands, Rússlands, Mongólíu, Japans, Bandaríkjanna og Kanada. Sverrir segir að þeir bræður ferðist lengstu leið um hnöttinn sem hægt sé að fara akandi á landi.

Sverrir segir það jafnvel koma til greina að ferðast til Kasakstans, en það er óljóst sem stendur. Þá stendur til að þeir Einar og Sverrir hitti föður sinn, Þorstein Hjaltason, ásamt öðrum í Los Angeles sem myndu þá hjóla með þeim bræðrum þvert yfir Bandaríkin. Aðspurðir segja þeir Sverrir og Einar að Þorsteinn faðir þeirra hafi smitað þá af ferðabakteríunni.

Þeir Sverrir og Einar segja hugmyndina vera þá að njóta ferðarinnar enda um mikið ævintýr og upplifun að ræða. Þeir taka með sér myndavélar og upptökuvélar til að taka upp allt það sem fyrir augu og eyru ber í ferðinni. Auk þess mun Sverrir halda úti bloggsíðu þar sem greint verður frá ferðalaginu í máli og myndum.

Allar nánari upplýsingar um ferðina er að finna á bloggsíðu Sverris Þorsteinssonar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert