Flugvöllurinn á góðum stað en á dýrmætu byggingarlandi

Frá Reykjavíkurflugvelli.
Frá Reykjavíkurflugvelli.

Meðal helstu niðurstaðna samráðsnefndar um framtíðarkosti Reykjavíkurflugvöllur er, að núverandi flugvöllur sé á mjög góðum stað frá sjónarmiði flugsamgangna og flugrekenda. Flugvallarsvæðið sé hins vegar mjög dýrmætt sem byggingarland og þjóðhagslegir útreikningar sýni, að flugvöllur á Hólmsheiði, Lönguskerjum eða flutningur innanlandsflugs til Keflavíkurflugvallar muni skila miklum ábata.

Skýrslan var afhent Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra og Kristbjörgu Stephensen, staðgengli borgarstjóra, í samgönguráðuneytinu í morgun. Síðdegis kynnti svo Helgi Hallgrímsson, formaður samráðsnefndarinnar, og aðrir nefndarmenn skýrsluna á blaðamannafundi.

Í skýrslunni kemur fram að til að unnt sé að ákvarða hvort mögulegt og hagkvæmt sé að reisa nýjan flugvöll á Hólmsheiði eða Lönguskerjum þurfi að fara fram ýtarlegar veðurfarsrannsóknir. Þær hófust í fyrra á Hólmsheiði en taka þurfi fleiri atriði til athugunar en gert hefur verið. Einnig þurfi að rannsaka veðurfar á Lönguskerjum og á báðum stöðum þarf að meta umhverfisáhrif af flugvallargerðinni og væntanlegri starfsemi.

Á vef samgönguráðuneytisins segir, að ráðuneytið líti svo á að áfram skuli haldið samstarfi borgaryfirvalda og samgönguyfirvalda varðandi framtíðarskipan innanlandsflugsins. Settur verði á laggirnar vinnuhópur sem leggi fram tillögur um tilhögun, kostnað og verkáætlun nauðsynlegra rannsókna á veðurfari og umhverfisáhrifum. Nauðsynlegt sé að þær tillögur verði mótaðar á næstu vikum til að unnt sé að hrinda rannsóknum af stað þegar í haust. Samgönguráðuneytið telji farsælast að þeir sem skipuðu samráðsnefndina starfi áfram að frekari framvindu málsins.

Þar til spurningum um möguleika á rekstri flugvallar í borgarlandinu eða nágrenni Reykjavíkur verður svarað verður Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýri miðstöð innanlandsflugs.

Skýrsla samráðsnefndar um Reykjavíkurflugvöll

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert