Brimaldan sogaði konuna á haf út og ógnaði samferðamönnum

Björgunnarsveitarmenn úr Víkverja í Vík á þeim stað í Reynisfjöru …
Björgunnarsveitarmenn úr Víkverja í Vík á þeim stað í Reynisfjöru þar sem konan fór í sjóinn. mbl.is/Jónas Erlendsson
Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson orsi@mbl.is

Þegar ferðahópurinn kom að fjörunni klukkan 15 á laugardag lét sjórinn ekki mikið yfir sér í hægum norðanandvara og virtist ekki þess líklegur að senda banvænar öldur á land eins og raunin varð.

Leiðsögumaðurinn í ferðinni gekk með hópnum ofan í fjöru, eftir að hafa varað fólkið við öldum. „Leiðsögumaðurinn stóð í fjörunni og varnaði fólki för að hellisskúta sem þarna er en heyrði þá hróp og læti. Sá hann þá konuna liggjandi eftir að alda hafði skellt henni í fjöruna, og hvernig aldan sogaði hana út," segir Sigríður Ásta Hallgrímsdóttir, starfsmannastjóri Kynnisferða „Tveir menn stukku á eftir henni og náðu til lands eftir illan leik án þess að ná til konunnar."

Eftir slysið var strax haft samband við björgunarsveitir og lögreglu ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar. Samferðafólk hinnar látnu varð fyrir miklu áfalli við atburðinn og var fólkið flutt til Reykjavíkur þar sem starfsmenn bandaríska sendiráðsins og áfallateymi Rauða krossins tóku á móti því. Lík konunnar fannst í sjónum um klukkan 17 og voru það liðsmenn björgunarsveitarinnar Víkverja frá Vík sem náðu henni um borð í gúmbjörgunarbát sinn.

Ferðahópurinn heldur af landi brott í dag og mun sendiráðið annast flutning hinnar látnu til síns heima í Pensylvaníuríki.

Hafa ítrekað fjallað um öryggi

Stefán Helgi segir ástandið lélegt á allnokkrum ferðamannastöðum á landinu og nefnir varasamar aðstæður við Gullfoss. Þar þarf að bæta girðingu við fossinn og bera sand á göngustíg í hálku. „Og auðvitað mætti vera viðvörunarskilti við Reynisfjöru á fjórum tungumálum," segir hann. „Leiðsögumaður Kynnisferða mun hafa varað fólk við hættunni, en þarna er um varhugaverðan stað að ræða og erfitt að kenna nokkrum um. Ferðamenn verða mjög uppteknir við að skoða sig um í fjörunni og snúa baki í sjóinn. Þá getur alda komið aftan að fólki. Ég hef margsinnis verið með fólk þarna og oft misst fólk undir öldu, án þess þó að það hafi farið á flot. Maður varar fólk alltaf við öldunum en samt blotna alltaf einhverjir.

Stefán segir að ýmsa fjölfarna ferðamannastæði mætti laga, s.s. Geysissvæðið, Dettifoss, Seljalandsfoss, Skógafoss og Dyrhólaey.

Einar Bárðarson, formaður björgunarsveitarinnar Víkverja, bendir á að sjólagið við Reynisfjöru á laugardag hafi verið mjög sérstætt. Sjór hafi verið ládauður en síðan hafi tvær stórar öldur komið á land með fyrrgreindum afleiðingum. Segir hann að enginn hafi átt von á öðru eins og mjög erfitt sé að sjá mynstur í sjólaginu til að átta sig á hegðun sjávarins þarna. „Þetta er breytilegt dag frá degi," segir hann. Einar bendir á að fjaran sé nægilega breið til að fólk geti haldið sig í öruggri fjarlægð frá sjónum og samt notið útsýnis að stuðlaberginu í fjörunni sem hefur einna mest aðdráttarafl gesta. Lögreglan í Vík hefur á liðnum árum séð ástæðu til að vara ferðamenn við öldugangi og einstök dæmi eru þess að menn hafi lent í hættu þegar öldur ná til þeirra.

Magnús Oddsson ferðamálastjóri segist aðspurður um ábyrgð ferðaskipuleggjanda ekki vita til þess að þeir séu sjálfkrafa ábyrgir fyrir slysum nema meint sök þeirra sé sönnuð fyrir dómi. Meta verði hvert mál.

Á liðnum árum hafa komið upp dæmi þar sem að ferðamenn hafa höfðað skaðabótamál á hendur ferðaskrifstofum eftir hrakfarir, án þess þó að takast að sanna ábyrgð þeirra. Hins vegar féll dómur í Hæstarétti 2004 þar sem fébótaábyrgð var lögð á ferðaskrifstofu vegna gáleysis við að skipuleggja ferðir í Glymsgil án þess að vitneskja um hættur lægju fyrir.

Í hnotskurn
» Ekki eru nema nokkrir dagar síðan björgunarsveitin í Vík fékk beiðni um að setja upp viðvörunarskilti við Reynisfjöru. Verkefnið var rétt komið af stað þegar hið hörmulega slys varð á laugardag.
» Árið 1985 var karlmaður nokkur hætt kominn í Reynisfjöru þegar brimalda hreif hann með sér á haf út. Maðurinn lifði hrakfarirnar af en var kominn 2 km frá ströndu þegar honum var bjargað.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert