Flugfélag Íslands hefur hafið reglubundið áætlunarflug í fyrsta skiptið milli Keflavíkur og Nuuk, höfuðstaðar Grænlands. Nuuk er fjórði áfangastaðurinn sem Flugfélag Íslands býður uppá í áætlunarflugi á Grænlandi en auk Nuuk er flogið til Kulusuk og Constably Pynt á austurströnd Grænlands og Narsarsuag á suður Grænlandi.
Fram kemur í tilkynningu frá flugfélaginu að flogið verði þrisvar í viku til Nuuk. Á mánudögum, þriðjudögum og föstudögum fram til 31. ágúst. Farið er í loftið frá Keflavík kl. 09:45 og komið til baka um kl. 17:15. Það eru flugvélar félagsins DASH 8 sem keyptar voru á síðasta ári sem gera þetta flug mögulegt, en þær geta lent á mjög stuttum flugbrautum eins og eru í Nuuk.
Stefnt er að því að auka möguleikana á tengingu milli landanna þannig að í framtíðinni verði Ísland sjálfsögð tenging fyrir flesta þá farþega sem eru á leið til og frá Grænlandi. Til og frá Íslandi eru einstakar tengingar í flugi beggja vegna Atlantshafsins sem mikill akkur er í fyrir Grænland að tengjast á sem hagkvæmastan hátt.
Í þetta nýja flug til Nuuk eru einmitt flestir farþegarnir sem bókað hafa í það í sumar á leiðinni í eða úr öðru millilandaflugi um Keflavíkurflugvöll.