Hreinsa mannorð mitt með öllum ráðum

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Rétt rúmlega tvítugum pilti, Helga Rafni Brynjarssyni, hefur verið hótað öllu illu undanfarið, í kjölfar þess að hann var ásakaður um hafa drepið hundinn Lúkas á níðingslegan hátt í slagtogi við nokkra félaga sína á Eimskipsplaninu á Akureyri aðfaranótt 17. júní. Hann var kærður á fimmtudag og í gær kallaður til yfirheyrslu hjá lögreglunni.

Á spjallsíðunum live2cruize.com og hundaspjall.is má enn sjá líflátshótanir og hótanir um líkamsmeiðingar sem birtar hafa verið undir dulnefnum. Áður mátti sjá svæsin skilaboð til Helga á bloggsíðum hans og síðunni barnaland.is, en búið er að læsa bloggsíðunum og flestum spjallþráðunum á Barnalandi hefur verið eytt.

„Einhverjir aðilar hafa hringt í mig og mér hefur verið hótað," segir Helgi Rafn, sem búsettur er á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Morgunblaðið.

„Annaðhvort eigandinn eða einhver ræktandi hefur hringt í mig og sagt mér að finna hundinn. Ég sagði henni bara að ég vissi ekki um neinn hund. Einnig hafa fjölmiðlar og lögreglan rætt við foreldra mína um málið.

Eins og ég hef áður sagt: Ég var ekki á staðnum. Ég var á Blönduósi þegar þetta á að hafa gerst og vinur minn var með mér. Ég kom ekki á Akureyri fyrr en um hálftvö um morguninn."

Hefur einhver ráðist á þig í kjölfarið?

„Ég hef sem betur fer ekki lent í neinum meiðingum. Það virðast allir vera rosalega harðir á Netinu en geta svo ekki sagt neitt við mig augliti til auglitis. Ég hef bara eitt að segja við þá sem hafa haldið þessu fram um mig á Netinu: Finnið ykkur annan blóraböggul, ég kom ekki nálægt þessu. Ég vil að þið látið mig í friði."

Veistu hvers vegna þetta hefur verið borið á þig?

„Það er einmitt það sem ég er búinn að vera að spá í síðustu þrjá daga. Einfaldlega: Af hverju ég? Hef ég gert einhverjum eitthvað á Akureyri? Ég hef ekki hugmynd um hver kom þessum orðrómi af stað."

Hefur þú íhugað meiðyrðamál vegna hótananna?

„Ég ætla að fara í meiðyrða- og skaðabótamál við fólkið sem hefur talað svona um mig. Jafnvel við síðurnar sem birtu þetta. Ég hef ekki sett mig í samband við lögfræðing en geri það eftir helgina. Ég mun reyna að hreinsa mannorð mitt með öllum ráðum."

Vitni að meintum níðingsskap gagnvart hundinum hefur gefið sig fram, og fullyrðir að áðurnefndur drengur hafi verið að verki og atvikið náðst á öryggismyndavél. Talsmaður Eimskips segir hins vegar að engin slík upptaka sé til á vegum félagsins, og engar öryggismyndavélar séu á svæðinu sem um ræðir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert