Samtök atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði (SART) segja að hafin sé vinna við endurbætur á rafkerfi íbúða á fyrrum varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli í samræmi við íslenskar reglur um rafmagnsöryggi og fyrirmæli Neytendastofu. Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar hafi nú þegar samið við nokkra löggilta rafverktaka varðandi framkvæmd fyrsta hluta verksins.
Verkið felur m.a. í sér breytingu á spennu úr 110 í 230 volt, settar verða nýjar greinatöflur í íbúðir með sjálfvirkum varnarbúnaði og lekastraumsrofavörn, skipt verður um tengla og einnig ljósabúnað þar sem við á. Rafverktakar munu venju samkvæmt tilkynna verk sín til Neytendastofu sem síðan mun láta framkvæma skoðun á þeim.
Samtökin segja ljóst, að verkefni sem varða uppfærslu á rafkerfi Keflavíkurflugvallar séu af þeirri stærð að nauðsynlegt verði að áfangaskipta og forgangsraða verkþáttum þannig að umbreytingin verði markviss, hagkvæm og örugg. Rafverktakar leggi ríka áherslu á að verkið verði unnið í náinni samvinnu við Neytendastofu og öryggisfulltrúa Þróunarfélagsins, sem skipaður verði á næstu dögum.
Samtökin segja jafnframt, að þau telji að ná hefði mátt markmiðum Þróunarfélagsins varðandi framkvæmdir á svæðinu í samvinnu við Neytendastofu án umdeildrar lagasetningar en í síðustu viku voru sett bráðabirgðalög um að heimilt sé að nota raflagnir og rafföng í núverandi ástandi á svæðinu fram til 1. október.