„Þegar búið að óska eftir nýrri þyrlu

mbl.is/Friðrik
Eftir Silju Björk Huldudóttur

silja@mbl.is

„Það er mikið áfall að missa TF-SIF í hafið," sagði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra í samtali við Morgunblaðið í Straumsvík í gærkvöldi. „Þetta er þyrla sem hefur verið 22 ár í störfum fyrir Landhelgisgæsluna. Það er mikil og góð reynsla af henni. Hún er búin að bjarga tugum ef ekki hundruðum mannslífa. Það er því mikill skaði að missa þyrluna. Aðalatriðið í okkar huga er hins vegar að mennirnir björguðust og það hefur allt gengið að óskum," sagði Björn. Aðspurður sagði hann að aðstæður til björgunar hefðu ekki getað verið betri og vísaði þar bæði til nálægðar við land, staðsetningar björgunarbátsins vegna æfinga, veðurfars og þess hve gott var í sjóinn. "Þannig að þeir gátu farið beint í fangið á björgunarmönnum. Þeir þurftu, að mér skilst, að synda í sjónum, en allt gekk það vel."

Aðspurður sagði Björn ljóst að allt yrði gert til að koma þyrlunni í land, en ljóst væri að hún væri ónýt. "Almenn skynsemi segir okkur það að þyrla sem er búin miklum rafeindatækjum og lendir í því að fara á hvolf í sjó, hún sé ekki til margra hluta nýt eftir það," sagði Björn og upplýsti að þegar hefði verið haft samband við Eurocopter, sem er framleiðandi að þyrlunum. Benti Björn á að þyrlur LHG væru tryggðar og tók fram að gerðar yrðu ráðstafanir til þess að útvega aðra þyrlu.

Þyrlan kostar um einn milljarð

Í samtali við Morgunblaðið sagði Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, þá dómsmálaráðherra hafa flogið yfir slysstað og að það hefði verið skelfileg sjón að sjá þyrluna mara í hálfu kafi á hvolfi. "Ég held að það sjái það hver maður að vélin hlýtur að vera ónýt," sagði Georg. Hann áætlar að þyrla á borð við TF-SIF kosti um einn milljarð króna.

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert