Þeir sem taka þátt í hátíðardagskrá Hinsegin daga þessa helgina mega búast við að sjá neyðarflutningsmann Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins á ferðinni á vélhjóli. Vonast er til þess að þetta muni stytta viðbragðstíma sjúkraflutningamanna ef neyð ber að garði, enda má búast við mannþröng í miðborginni í dag og næstu helgi.
Einn sérmenntaður neyðarflutningsmaður verður á ferðinni á vélhjóli. Hann verður með allan nauðsynlegan búnað til þess að beita fyrstu hjálp, t.d. hjartastuðtæki. Þetta er tilraunaverkefni slökkviliðið hefur unnið að í sumar.
Slökkviliðið bendir á að sjúkrabifreið mun að sjálfsögðu fylgja í kjölfarið ef eitthvað kemur upp, en lykilatriðið í þessu er að stytta viðbragðstímann.