Fá samtals 1,6 milljarða í bætur fyrir vatnsréttindi

Hálslón við Kárahnjúkavirkjun.
Hálslón við Kárahnjúkavirkjun. mbl.is/RAX

Matsnefnd, sem var skipuð samkvæmt samningi Landsvirkjunar og flestra landeigenda við Jökulsá á Dal, Jökulsá í Fljótsdal og Kelduá, hefur komist að þeirri niðurstöðu að landeigendur við Jökulsá í Dal skuli fá samtals 1,2 milljarða króna fyrir vatnsréttindi vegna Kárahnjúkavirkjunar og landeigendur við Jökulsá í Fljótsdal og Kelduá samtals 410 milljónir. Úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp á Hótel Héraði á Egilsstöðum í dag.

Hægt verður að fara með niðurstöður nefndarinnar fyrir dómstóla, sætti aðilar sig ekki við úrskurðinn.

Vatnsréttarhafar fóru fram á um 60 milljarða króna bætur gegn Landsvirkjun, sem mat slíkar bætur á 375 milljónir hið hæsta. Krafa landeigenda byggðist á eingreiðsluuppreikningi 15% árgreiðslu af brúttótekjum Kárahnjúkavirkjunar, í samræmi við verðmyndun sem orðið hefur á vatnsréttindum eftir gildistöku raforkulaga frá 2003. Á þeim grundvelli var þess krafist að heildarvatnsréttindi vegna Kárahnjúkavirkjunar verði metin á u.þ.b. 60 milljarða en af þeim vatnsréttindum eiga einkaaðilar einungis hluta og er þar um að ræða eigendur allt að 60 jarða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert