Telur sig ekki vanhæfan

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, telur ekki eðlilegt að forsætisnefnd þingsins taki upp einstök mál sem séu uppi á borðum hjá Ríkisendurskoðun, enda séu þau mál til meðferðar hjá fjárlaganefnd sem hafi það hlutverk með höndum á vegum þingsins.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, fyrsti varaforseti Alþingis, sagði í Morgunblaðinu í gær að hún teldi eðlilegt að forsætisnefnd ræddi framkvæmd fjárlaga í ljósi þeirrar deilu sem upp er komin um framlög vegna Grímseyjarferju og var Sturla spurður hvort hann teldi sig vanhæfan til að koma að því máli í ljósi þess að hann var samgönguráðherra þar til í vor.

"Hins vegar tel ég eðlilegt að Ríkisendurskoðun geri forsætisnefnd grein fyrir þeim deilumálum sem upp hafa komið um framkvæmd fjárlaga," sagði Sturla og bætti við að hann sæi ekki að hann væri vanhæfur sem forseti Alþingis til að koma að umfjöllun um þau mál almennt á vettvangi forsætisnefndarinnar. Hann benti einnig á að í gildi væru lög um framkvæmd fjárlaga og hugsanlega þyrftu að koma til skoðunar lagabreytingar í þeim efnum með það að markmiði að bæta samskipti löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins að þessu leyti.

Fundur forsætisnefndar Alþingis hefur verið boðaður á mánudag og þriðjudag í næstu viku og verða þar til umfjöllunar þingstörfin í vetur og ýmis mál þeim tengd. Til þess fundar mæta fulltrúar Ríkisendurskoðunar og umboðsmaður Alþingis eins og venja er á þessum tíma árs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert