Rak á fiskikari út á Skorradalsvatn

Björgunarsveit og lögregla voru kallaðar til er tólf ára dreng rak út á Skorradalsvatn, í fiskikari sem hann var að leika sér í, eftir hádegi í dag. Samkvæmt upplýsingum lögreglu varð piltinum ekki meint af volkinu en hann var kaldur og blautur er hann náðist í land.

Lögreglumenn frá Borgarnesi kom fyrst á staðinn og réru þeir á bát sem þeir fundu í nágrenninu út á vatnið. Náðu þeir piltinum um borð í bátinn en þar sem nokkuð hvasst var biðu þeir eftir björgunarsveitarmönnum, sem komu skömmu síðar með hraðbát, og drógu þeir þá í land.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert